Finnland og (dægur)geópólitík – Yfirlit

Merkingarbær stef úr sögu þjóða og mannkynsins skjóta upp kollinum í kvikmyndum og öðru menningarefni í nútímanum.

Útdráttur: Með inngöngu sinni í Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 2023 sneri Finnland við áratugalangri hefð fyrir geópólítísku hlutleysi landsins á þröskuldinum milli austurs og vesturs. Allt frá yfirlýsingu sinni um sjálfstæði og gegnum kalda stríðið var Finnland hluti hins svonefnda varðbeltis sem skildi Vestur-Evrópu frá Sovét-Rússlandi. Fræjunum að nýrri stöðu Finnlands sem varnargarðs gegn landfræðilegri útþenslustefnu Rússlands var þó sáð þegar á tímum seinni heimsstyrjaldar, sem sjá má af hinni nýlegu kvikmynd Sisu sem notið hefur vinsælda um allan heim og gerist á tímum Lapplandsstríðsins.

Svonefnd geópólitík  – utanríkisstefna sem tekur mið af samspili stjórnmála og landafræði – á upptök sín á Norðurlöndum. Hugtakið var fyrst sett fram af sænska ljósmyndaranum Rudolf Kjellén árið 1916 í textanum Staten som livsform (sem kom út á þýsku árið eftir undir titlinum Der Staat also Lebenform) og á öndverðri 20. öld ruddi geópólitíkin sér til rúms sem sérstök fræðigrein. Geópólitísk hugsun hafði mikil og mótandi áhrif á tuttugustu öldinni og það var á vettvangi hinna geópólitísku fræða sem hugtökin „World Island“ og Lebensraum voru fyrst sett fram, svo og Rimland-kenningin. Þrátt fyrir söguleg tengsl greinarinnar við Þýskaland nasismans hefur geópólitík hlotið uppreisn æru sem samtímafræðigrein fyrir tilstilli ýmissa framfaraskrefa innan áhrifasviðs hennar, en þar má nefna gagnrýna bylgju, femíníska bylgju og dægurmenningarbylgju. Allar stuðluðu þessar vendingar að því að auka fjarlægð á milli greinarinnar og myrkrar fortíðar hennar. Eftir inngöngu Finnlands í Atlantshafsbandalagið (NATO) eru Norðurlönd nú enn og aftur í brennidepli geópólitískrar hugmyndafræði.

Rússland gert afturreka: Frá sjálfstæði til Framhaldsstríðsins

Finnar lýstu yfir sjálfstæði árið 1917 og settu með því fordæmi fyrir aðrar þjóðir sem höfðu verið innlimaðar í rússneska keisaradæmið. Ekki leið á löngu áður en fleiri lönd sem höfðu verið undirskipuð Rómanov-veldinu fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Eistland, Lettland, Litháen og Pólland, auk þess sem bolsévikar kæfðu í fæðingu tilraunir nokkurra landa til að stofna sjálfstæð ríki (þ.á.m. Úkraínu, Georgíu og Ídel-Úral-ríkisins). Eftir blóðuga borgarastyrjöld milli rauðliða og hvítliða (1918) varð Finnland – sem átti landamæri að hinu nýstofnaða Sovét-Rússlandi – að norðlægum varnargarði í geópólitískri blokk sem þekkt var undir franska heitinu cordon sanitaire („varðbelti“ á íslensku). Hlutverk þessa svæðis var að skilja að hin svokölluðu „pólitískt óheilbrigðu“ (e. politically diseased) ríki, þ.e. Þýskaland landheimtustefnunnar og Rússland bolsévismans, sem seinna varð þekkt sem Sambandsríki sósíalískra sovétlýðvelda. Finnland réði yfir strandlengju á norðurskautssvæðinu fyrir seinni heimsstyrjöld, auk landsvæðis síns á þröskuldi Leníngrad, fyrrum höfuðborgar Rússlands. Af þeim sökum féllu staðbundnar aðstæður í Finnlandi vel að hagsmunum Vestur-Evrópu, sem meðal annars fólust í því að koma í veg fyrir að „smitsjúkdómur“ byltingarinnar breiddist út á meðal verkafólks í Birmingham, Rotterdam eða París, svo og því að koma á fót nýjum markaði fyrir vörur sem framleiddar voru í þessum iðnaðarborgum. Finnland átti þó eftir að feta sömu leiðina að valdboðsstefnu og flest önnur ríki sem áttu landamæri að Sovétríkjunum eftir því sem stjórnmálalandslag Evrópu hneigðist æ meir í átt að hægri afturhaldsstefnu á fjórða áratug 20. aldar –  þó að það tímabil hafi varað tiltölulega stutt.

Sisu má þýða lauslega sem stóíska seiglu eða þrautseigju andspænis miklu mótlæti. Hugtakið dregur dám af óblíðu veðurfari Finnlands og erfiðri fortíð þess. Það er talið helsta þjóðarsérkenni Finna og jafnframt uppspretta (hægláts) stolts.

Seinni heimsstyrjöldin reyndist marka þáttaskil fyrir geópólitíska afstöðu Finnlands. Eftir að utanríkisráðherra Þýskalands nasismans, Joachim von Ribbentrop, undirritaði leynilegt samkomulag við Sovétríkin um skiptingu evrópskra landsvæða þann 23. ágúst 1939 beindist athygli Jósefs Stalín að Finnlandi, en hann hafði hug á að endurheimta þau svæði sem höfðu tapast vegna Brest-Litovsk-samningsins (1918) sem hluti samkomulags við Þýskaland. Í kjölfar leifturstríðsins gegn Póllandi úr vestri réðist Rauði herinn inn í Austur-Pólland og stuttu seinna inn í Finnland. Finnar sýndu sisu í verki og fylktust til varnar landi sínu í Vetrarstríðinu (1939–1940) en í kjölfar þeirrar íhlutunar voru Sovétríkin rekin úr Þjóðabandalaginu.

Stjórnvöld í Finnlandi höfðu þó séð áhlaupið fyrir og látið gera röð varnarvirkja sem nefnd var Mannerheim-línan og hjálpaði Finnum að bægja Sovétmönnum frá. Eftir að hafa mistekist að endurheimta Finnland sótti Moskva á önnur mið og sumarið 1940 innlimuðu Sovétríkin hin nýstofnuðu lýðveldi Eystrasaltsríkjanna, Eistland, Lettland og Litháen, inn í ríkjasamband sitt – þó að meirihluti hins vestræna heims kæmi ekki til með að viðurkenna stöðu þessara ríkja innan Sovétríkjanna næstu fimm áratugina. Fljótlega sló aftur í brýnu milli Finna og Sovétmanna í Framhaldsstríðinu (1941–1944); í þetta sinn var Finnland í sóknarstöðu með stuðningi Þjóðverja, endurheimti glötuð landsvæði og breiddi úr sér inn í Sovét-Karelíu. Ein vending enn var í vændum: Finnar og Rússar undirrituðu samning um vopnahlé sem kennt hefur verið við Moskvu og festu þar með í sessi samkomulag um landamæri sem Finnar höfðu gert við Sovétríkin árið 1940. Í samningnum var kveðið á um að Finnland tæki upp vopn gegn þeim hermönnum þriðja ríkisins sem enn voru eftir í Finnlandi og á Skandinavíuskaganum í hinu svonefnda Lapplandsstríði (1944–1945).

Hræringar á áhrifasvæði Kremlar í árdaga kalda stríðsins

Finnland hafnaði úti í kuldanum þegar seinni heimsstyrjöld lauk og var ekki boðið á Jalta-ráðstefnuna þar sem samið var um skiptingu valds og landsvæða. Bandaríkin og Bretland leyfðu Finnlandi að renna inn undir jaðarinn á áhrifasvæði Moskvu eftir sigur Bandamanna á öxulveldunum, að nokkru leyti vegna brotthvarfs hins einarða andkommúnista C. G. E. Mannerheim frá stefnumótun í finnskum stjórnmálum. Þrátt fyrir að Finnland væri þannig á vissan hátt komið undir forræði Kremlar komst það hjá því að verða að fylgihnetti Sovétríkjanna sökum diplómatískrar kænsku. Finnar komu þó til með að axla mikla byrði á árunum eftir stríðslok, sem skiptist í eftirfarandi fjóra þætti:

  1. missi landsvæða við landamærin í Austri og við norðurheimskautið,
  2. þá áskorun að innlima aftur inn í ríkið Finna, Ingría og Karelíubúa sem höfðu flosnað upp frá heimkynnum sínum í Sovétríkjunum,
  3. himinháar stríðsskaðabætur sem Finnland þurfti að greiða Sovétríkjunum, og
  4. það að Finnar voru þvingaðir til að afþakka Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum.

Þessi nýja og margþætta staða undirbjó jarðveginn fyrir nýyrði í orðabók hinna geópólitísku fræða: heldur niðrandi hugtak er á ensku útleggst sem finlandization.

Á sviði alþjóðasamskipta vísar hugtakið finlandization til þess valds sem yfirvöld í Moskvu höfðu yfir Finnlandi í kjölfar seinni heimsstyrjaldar – með öðrum orðum til þeirrar stöðu þegar land er að heita má sjálfstætt, en getur þó ekki farið gegn

Á tímum kalda stríðsins helgaðist hin geópólitíska sjálfsmynd Finnlands af jaðarstöðu þess. Finnland gekk ekki til liðs við þá ríkjablokk sem Sovétríkin réðu yfir og sem teygði sig allt frá Póllandi til Búlgaríu, og staða Finnlands var heldur ekki sambærileg við stöðu hinnar hlutlausu en þó kommúnísku Júgóslavíu sem braust undan áhrifavaldi Moskvu árið 1948. Þess í stað lenti Finnland í stöðu nokkurs konar varðbeltis með öfugum formerkjum, sem eitt þeirra ríkja er í sameiningu áttu að einangra og vernda Sovétríkin fyrir vestrænum áhrifum. Finnlandi var þannig falið að stemma stigu við og kæfa þá framrás kapítalískrar og neysluhyggjumiðaðrar menningarheimsvaldastefnu sem streymdi frá hinni samfelldu heild vestrænna borga sem spannaði allt frá Lundúnum gegnum Washingtonborg til Hollywood og beindist að löndunum austan við járntjaldið eftir árið 1948.

Þrátt fyrir þetta átti Finnland eftir að verða þýðingarmikill milliliður í upplýsingagjöf inn í Sovétríkin gegnum Eistland, sökum landfræðilegrar nálægðar Finnlands og Eistlands og hinna náskyldu tungumála þjóðanna. Fjórum árum síðar, árið 1952, stimplaði Finnland sig rækilega inn í geópólitík samtímans með því að halda sumarólympíuleikana sem höfðu átt að fara fram árið 1940 en var frestað vegna heimsstyrjaldarinnar. Líkt og í Bandaríkjunum var áfengisbanni komið á í Finnlandi á millistríðsárunum, en samt sem áður kynntu Finnar nýja drykkjarvöru fyrir umheiminum í tengslum við ólympíuleikana: long drink (fi. lonkero). Sívaxandi vinsældir þessa drykkjar, sem inniheldur blöndu af gini og greipaldinsafa, hafa eflt vörumerki finnsku þjóðarinnar og drykkurinn fer nú sigurför um Bandaríkin.

Finnland fótar sig á eystri jaðri Norðurlanda

Þrátt fyrir að verða miðpunktur aþjóðlegrar athygli vegna ólympíuleikanna átti Finnland eftir að halda sérstöðu sinni í geópólitísku samhengi. Í stjórnartíðum forsetanna Juho Kusti Paasikivi (1946–1956) og eftirmanns hans Urho Kaleva Kekkonen (1956–1982) lenti Finnland í millibilsástandi á milli austurs og vesturs; tilheyrði hvorugri blokkinni fyllilega en varð þess í stað terra nullius – eða ef ekki beinlínis það, þá nokkurs konar einskis manns land á tímum kalda stríðsins fyrir tilstilli þess virka hlutleysis sem fólst í hinni svokölluðu Paasikivi-Kekkonen-línu.

Sem þjóðarleiðtogar áttu Paasikivi og Kekkonen það sameiginlegt að fylgja Sovétríkjunum í utanríkismálum, en undir lok tuttugustu aldar tók Finnland að hneigjast að Svíþjóð í þeim efnum svo að lítið bar á. Yfirvöld í Finnlandi og Svíþjóð mynduðu samstjórn harðrar norrænnar mótstöðu gegn þeirri atlögu Sovétríkjanna sem búist var við að skylli á norðurstrandlengju meginlands Evrópu. Svíar bjuggu sig undir að brjóta áhlaupið á bak aftur á meðan Finnar bjuggust til þess að gleypa það í sig, með öðrum orðum að nýta landfræðileg skilyrði sín til þess að sliga innrásarliðið og festa þannig í sessi rúmtakslegt eðli landsins sem nokkurs konar niðurfallsfens með sínu jökullausa lífbelti af barrskógum, malarásum, mýrum, drymilurðum, rofsléttum, ám og stöðuvötnum. Aldrei varð neitt af þessari innrás, þó að heimsbyggðin hafi haldið niðri í sér andanum þegar sovéskur kafbátur strandaði nærri herskipahöfninni í Karlskrona í október árið 1981 og olli heljarinnar uppnámi á annars rólegu svæði. Þótt Svíþjóð hefði gripið til kænskubragða sem virtust hafa tryggt óformlega innlimun landsins inn í sameiginlegar öryggisráðstafanir í tengslum við Nato var Finnland enn á jaðrinum þegar kom að slíkri vernd: svæði sem ætlað var að stemma stigu við árásum úr austri þegar Rauði herinn kæmi til með að hlunkast vestur á bóginn til móts við endanlegan ósigur gegn Bandaríkjamönnum, Bretum og Kanadamönnum.

Þegar tekist var á um framtíð Sovétríkjanna árið 1991 gegndi Finnland því hlutverki að miðla ringulreið ágústvaldaránsins til umheimsins með nýrri upplýsinga- og samskiptatækni sem ekki var undir eftirliti herforingjanna og embættismannanna sem höfðu snúist gegn Gorbatsjov. Árið 1995 slóst Finnland í hóp með Austurríki og Svíþjóð, öðrum hlutlausum ríkjum á meginlandi Evrópu sem ekki voru undir stjórn kommúnista, og gekk í Evrópusambandið. Á vettvangi sameinaðrar Evrópu byggði Finnland upp blómlegt viðskiptasamband við grannríki sitt í austri, Rússneska sambandsríkið, og næstu áratugina vildu fáir Finnar heyra minnst á aðild að NATO. Eftir að Rússland innlimaði Krímskaga árið 2014 komu alþjóðlegar viðskiptaþvinganir þó illa niður á rúblunni, sem dró úr áhuga Finna á því að viðhalda sterkum tengslum við Rússland. Allsherjarinnrásin í Úkraínu árið 2022 olli síðan geópólitískum jarðskjálfta á austanverðum Norðurlöndum. Svíar höfðu lengi skipst í þrennt varðandi afstöðu til aðildar að hinu vestræna bandalagi (þriðjungur með, þriðjungur á móti og þriðjungur óákveðinn) en eftir innrásina í Úkraínu varð sú breyting á að naumur meirihluti var fylgjandi aðild. Þegar litið var til Finna, sem höfðu tjáð skýra andstöðu við aðild við lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar, voru skilaboðin skýr: NATO núna!

Úkraínska tengingin: Hlutleysi Finnlands líður undir lok í Donbass

Eftir að hafa hrist af sér óformlegt samkomulag um öryggismál við Svíþjóð greiddu finnsk stjórnvöld úr flóknum vef hindrana varðandi aðild landsins að NATO – hindrunum sem Tyrkland og Ungverjaland höfðu átt upptökin að – og í kjölfarið gekk Finnland til liðs við bandalagið þann 4. apríl 2023. Svíar vildu ólmir fylgja á eftir (og gerðu það loks þann 7. mars 2024). Að því er virtist á einni nóttu varð Finnland nýjasta aðildarríki NATO og – í ljósi hinna 1.340 kílómetra löngu landamæra sem landið deilir með Rússlandi – það land bandalagsins sem þótti hafa mest geópólitískt vægi. Að auki var Finnland kærkomin viðbót við bandalagið vegna myndarlegra útgjalda sinna til hernaðarmála, tilkomumikils herafla og áratugalangrar hefðar almenns stríðsviðbúnaðar. Ennfremur áttu vinsældir Sönnu Marin í embætti forsætisráðherra (2020–2023) þátt í því að finnska þjóðin varð þekkt víða um Vesturlönd fyrir hæverskra persónutöfra í bland við aldargamla andstöðu við útþenslustefnu Rússlands.

Það hittist svo á að í apríl 2023, sama mánuði og Finnland gekk í NATO, var kvikmyndin Sisu eftir Jalmari Helander frumsýnd í Bandaríkjunum. Sögusvið myndarinnar er Lappland rétt eftir Moskvu-vopnahléið, þegar Finnland snerist gegn fyrrum bandamönnum sínum Þjóðverjum. Frásögnin hverfist um einrænan gullgrafara sem finnur mikla gullæð í fjöllum við norðurheimskautið áður en hann hefur eins manns stríð gegn hersveit Waffen SS, sem er á leið til Noregs með finnskar konur sem hermennirnir hafa tekið til fanga. Eftir því sem sögunni vindur fram komumst við að því að gullleitarmaðurinn lífsreyndi er fyrrum sérþjálfaður hermaður sem drap mikinn fjölda óvina í Vetrarstríðinu og varð í kjölfarið þekktur sem „Kosjei hinn ódauðlegi“ á meðal sovéska innrásarliðsins, með vísan í martraðarkennt skrímsli úr slavneskri þjóðsagnahefð. Orðspor hans sem fyrrum ógnvaldar Rússanna er síðan innsiglað á sögutíma myndarinnar með réttmætri en jafnframt tilefnislítilli slátrun á sadískum nasistum. Í söguhetjunni Aatami (Jorma Tommila) er ýmsum þáttum úr fari Simo Höyhä, leyniskyttu úr Vetrarstríðinu, fléttað saman við persónu hins sjálfskipaða löggæslumanns úr bandarískum hasarmyndum (s.s. John Rambo, Beatrix Kiddo, John Wick). Þannig er dregin upp mynd af finnska þjóðarsérkenninu sisu sem dýrmætri viðbót við geópólitískt mikilvægi Finnlands á hinni norð-austlægu víglínu Nato-ríkjanna. Terra nullius ei meir!

[Translate to Dansk:]

[Translate to Dansk:]


Analysing popular culture can help us understand large geopolitical events and movements.

This article was published in response to readers' interest in 'Sisu', Finish history and popular culture.


Ítarefni:

Tenglar: