Kynfræðsla og hugtakið seksuel dannelse í Danmörku og Svíþjóð

Skilningur á kynferðismálum í ólíku samhengi er nauðsynlegur þáttur í persónulegum þroska og menntun fólks.

Útdráttur: Danska hugtakið dannelse má íslenska á ýmsa vegu – sem „háttvísi“, „fágun“ eða „myndun“, og á ensku er það oft þýtt sem formation („mótun“, „myndun“). Það vísar þó einnig til persónulegs og menntunarlegs þroska einstaklinga, á svipaðan hátt og þýska hugtakið bildung. Í samhengi kynferðismála vísar dannelse í sinni einföldustu merkingu til persónulegs og menntunarlegs þroska í tengslum við kynlíf, kyn og kyngervi, líkama, heilsu, sjálfsvitund, líffræðilega starfsemi, mörk í samskiptum o.fl. Einnig getur hugtakið vísað óbeint til ríkjandi siðvenja varðandi kynferðismál og til gagnrýni á slíkar siðvenjur, svo og til annarra siða og venja sem tengjast kynferðismálum, kyni og kyngervi innan heimspeki, bókmennta, fjölmiðla og svo framvegis.

Snúið er að þýða danska hugtakið seksuel dannelse. Því mætti lýsa sem tegund kynfræðslu sem hefur breiðari skírskotun en hefðbundin kynfræðsla og þar sem hugmyndir um dannelse eru hafðar til hliðsjónar. Þetta er það ferli þegar einstaklingur verður að kynveru, sem er þáttur í sjálfsmótun hvers og eins. Almennt séð má skilja hugtakið innan víðara samhengis frjálsrar, almennrar menntunar, eða í samhengi við þýska hugtakið bildung (sem er oft notað í ensku), með sérstakri áherslu á kynferðislegar hliðar þessa langvarandi ferlis. Seksuel dannelse spannar breitt svið umfjöllunarefna þar sem kynlíf, kyn og kyngervi, líkami, heilsa, sjálfsvitund, líffræðileg starfsemi, mörk í samskiptum og samþykki eru þau sem helst liggja í augum uppi. Mannleg tengsl og samskipti, viðmið og gildi samfélagsins og gagnrýnin nálgun á þau, femínismi, aktívismi og dægurmenning eru einnig fyrirferðarmikil málefni innan sviðsins. Þessi víðfeðma nálgun gerir okkur kleift að skoða ýmislegt sem við þekkjum úr daglegu lífi í breiðara samhengi mannkynssögu, menningar og stjórnmálalandslags.

Í dönsku er orðið dannelse meðal annars skilgreint svo: almenn þekking á einkum menningarlegum sviðum, svo sem myndlist, tungumáli, bókmenntum, tónlist og sagnfræði, í tengslum við mikinn andlegan þroska, fágaða framkomu og lifnaðarhætti, sem eru afrakstur góðrar menntunar og uppeldis. Í ensku er það oft þýtt sem formation („mótun“) vegna tengsla við sögnina to form (d. at danne). Mismunandi tilbrigði við nafnorðið dannelse og sögnina at danne eru einnig til í norsku og sænsku. Í íslenskri orðabók má finna tökuorð sem leidd eru af dönsku orðunum, s.s. lýsingarorðið „dannaður“, sem merkir að vera kurteis og kunna sig.

 

Seksuel dannelse í dönsku samhengi

Hugtakið seksuel dannelse birtist líklega fyrst í dönsku samhengi árið 2016 í grein í Jyllands-Posten eftir Bjarne Christensen, sem þá var framkvæmdastjóri danskra samtaka um kynheilbrigði sem nefnast Sex & Samfund (Kynlíf og samfélag). Þar kallaði hann eftir betri kynfræðslu í dönskum framhaldsskólum með það fyrir augum að efla „seksuel dannelse“ meðal nemenda. Hugtakið er þannig fremur nýlegt og á sér enga viðtekna skilgreiningu. Christensen tengdi seksuel dannelse þó við tvö önnur svið sem geta stuðlað að auknum skilningi á hugtakinu:

  1. annars vegar hugmyndina um almenna sjálfsmótun, sem á sér rætur í dönsku lýðháskólahreyfingunni; og
  2. hins vegar þá hugmynd að kynfræðsla sé á ábyrgð hins opinbera og skuli því sinnt af grunnskólum og framhaldsskólum landsins, og fyrirkomulag hennar skuli ákveðið á vettvangi stjórnmálanna.

Síðan Christensen birti grein sína hefur Mette Øyås Madsen verið driffjöður í því að þróa og kynna seksuel dannelse, bæði almennt sem hugtak og í störfum sínum á vettvangi danskra lýðháskóla. Madsen skilur hugtakið sem lið í almennri menntun fólks, og sem ævilangt ferli. Á málþingi um seksuel dannelse, sem haldið var á vegum danska lýðháskólasambandsins (Folkehøjskolernes Forening, FFD) þann 7. mars 2022, sagði hún að nemendur ættu að fá öruggt rými:

“til að uppgötva að þeir [væru] ekki einir um að vera óöruggir og forvitnir, og tileinka sér þekkingu, tungutak og háttalag sem stuðla[ði] að breytingum og aukinni vellíðan, bæði fyrir þá sjálfa og aðra“, og að það yrði gert með því að „vera frjáls (vera sá sem maður er) og myndugur (axla ábyrgð á sjálfum sér og öðrum) einstaklingur í kynlífi með öðru fólki [og vera] fær um að velja það sem gagnast manni sjálfum og öðrum."

Í dönskum lýðháskólum er ungt fólk á aldrinum 18–30 ára sem býr saman, stundar nám og skemmtir sér eina önn í einu. Innan lýðháskólanna hefur borið á vaxandi þörf fyrir að þróa sameiginlegt tungutak og ekki síst sameiginlegar reglur um náin samskipti ungs fólks, og um það hvernig bregðast skuli við ef brot eiga sér stað. Þar sem lýðháskólarnir hafa afar frjálslegan og víðan ramma varðandi námsframboð og kennsluaðferðir má líta á þá sem nokkurs konar smáheim (e. microcosm) þar sem ríkjandi hugmyndafræði og hugmyndir um lýðræðislega sjálfsmótun hafa reynst góður grundvöllur til að efla seksuel dannelse og þróa áfram sem hugtak. Í Danmörku hefur hugtakið seksuel dannelse því frá upphafi – og í það minnsta enn sem komið er – aðallega verið þróað innan lýðháskólahreyfingarinnar.

Seksuel dannelse í Svíþjóð 

Seksuel dannelse hefur verið áhersluatriði í sögu sænskrar kynfræðslu frá upphafi. Merkilegt nokk hefur hugtakið þó ekki orðið útbreitt í Svíþjóð, þrátt fyrir að landið búi að sterkri hefð á einmitt þessu sviði og sé auk þess nátengt Danmörku og hinum norrænu löndunum að mörgu leyti.

Á 20. öldinni komu málefni sem tengdust hugtakinu dannelse ítrekað upp í sænskri orðræðu um kynfræðslu. Kynverund ungs fólks og þekkingarþörf þess, áhrif unga fólksins á fyrirkomulag kynfræðslu og mikilvægi þess að efni með áherslu á áhættuþætti kynlífs sé ekki of fyrirferðarmikið á kostnað kynlífsjákvæðara efnis – allt hefur þetta verið rætt á ýmsum stigum sænsks samfélags. Á seinni hluta 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar hafa málefni hinsegin fólks, inngilding og meðvitund um viðmið og gildi samfélagsins orðið æ meira áberandi í umræðu um kynfræðslu í Svíþjóð.

Kynfræðsla í sænskum skólum

Kynfræðsla ungs fólks í Svíþjóð á sér djúpar rætur. Þegar við upphaf 20. aldar fór fram kennsla í kyn- og frjósemisheilbrigði í stúlknaskólum í landinu. Framfarasinnaðar kennslukonur og kvenkyns læknar töluðu fyrir rétti stúlkna og ungra kvenna til þekkingar á eigin líkama. Kynfræðsla komst einnig snemma á dagskrá í sænska þinginu og var það trú margra að kennsla í faginu gæti orðið til þess að valdefla einstaklinga og stuðla þar með að bættu þjóðfélagi til lengri tíma litið.

Svíar hófu að kenna kynfræðslu í ríkisreknum grunnskólum (s. folkskolan) mun fyrr en Danir, eða árið 1942. Að auki var þar öflug hreyfing sem barðist fyrir kynfræðslu utan skólanna, fyrir fullorðið fólk á ýmsum aldri. Öfugt við það sem ætla mætti hefur kynfræðslu í sænskum skólum ávallt verið ætlað að snúast um málefni tengd siðfræði og mannlegum samskiptum. Kennslan var aldrei hugsuð þannig að áhersla yrði einungis lögð á líffræðilega þætti og getnað. Allt frá því að fagið var fyrst kennt í sænskum grunnskólum á 5. áratug 20. aldar hafa höfundar viðmiðunarreglna og umsjónaraðilar kennslunnar lagt mikið upp úr breiðri og heildstæðri sýn á það sem hafa ætti með í námsefninu.

Af þessu má vera ljóst að í Svíþjóð er löng hefð fyrir kynfræðslu, viðmiðunarreglum og handbókum á vegum hins opinbera auk ríkisútgefinna námsbóka á sviðinu. Þrátt fyrir þetta hefur fjöldi rannsókna á undanförnum árum leitt í ljós að kennurum finnst erfitt að kenna fagið og að þeir fá lítinn undirbúning, og ennfremur finnst nemendum þeir fá of litla kennslu í kynfræðslu. Þetta hefur leitt til breytinga á námsskrá í Svíþjóð og er þekkingarsviðið nú nefnt „Kynverund, samþykki og samskipti“ (s. sexualitet, samtycke och relationer). Nýja orðalagið felur í sér að skólar skuli leggja áherslu á samþykki, en málefni á borð við heiðurskúgun og klám eru einnig nefnd í námsskránni. Gagnrýnisraddir hafa bent á að þetta geti valdið því að litið verði fram hjá jákvæðari hliðum kynfræðslu og þess í stað verði ofuráhersla lögð á hvers kyns hættur og ofbeldi. Aðrar nýlegar umbætur í þessum efnum í Svíþjóð felast í því að kynfræðsla er nú skyldufag í öllu kennaranámi, en áður stóð fagið aðeins grunnskólakennaranemum til boða.

Kynfræðsla í dönskum grunnskólum 

Þó að kynfræðsla hafi verið skyldufag fyrir dönsk grunnskólabörn á aldrinum 6–15 ára (d. folkeskolen) síðan 1970, þá hefur menntakerfið ekki boðið kennurum neina þjálfun að ráði í að kenna fagið. Að sögn samtakanna Sex & Samfund er danskt kennsluefni í kynfræðslu hvorki samræmt né auðveldlega aðgengilegt. Ekki eru heldur nein viðmið fyrir ritun, gæði eða stig kennsluefnis og því vandaverk að nálgast gott efni. Þetta hefur leitt til misjafnra gæða í kynfræðslukennslu í dönskum skólum (sé fagið þá kennt yfirhöfuð), sem þýðir að yngri kynslóðir Dana skortir sameiginlega menningu, grundvallarþekkingu og orðaforða í kringum kynlíf, líkama, kyn og kyngervi.

Í apríl 2021 veitti ríkisstjórn Danmerkur 15 milljónum danskra króna til eflingar kynfræðslu í skólum landsins fram til 2023, með þeim rökum að „kennsla í heilbrigðis- og kynfræðslu og fjölskyldufræðslu [léki] mikilvægt hlutverk í almennri mótun [d. dannelse] nemenda“. Frá árinu 2023 hefur kynfræðsla einnig verið skyldufag í dönskum framhaldsskólum og veitti danska þjóðþingið tveimur milljónum danskra króna til þess verkefnis. Leiða má líkur að því að þessi sterku pólitísku skilaboð hafi átt sér langan aðdraganda og komið í kjölfar vitundarvakningar og æ háværari kröfu um kynfræðslu á bæði grunn- og framhaldsskólastigi. Í Viku sex árið 2022, áður en lögunum um kynfræðslu var breytt, stóðu danskir framhaldsskólanemar fyrir mótmælum vegna skorts á kynfræðslu á framhaldsskólastigi. Opinber orðræða og hegðun Dana í sambandi við kynlíf, náin sambönd, kyn, kyngervi og líkama hefur smám saman orðið almennari og byggist á traustari upplýsingum en áður – og slík samskipti eru óðum að færast af sviði einkalífsins og inn á svið hins opinbera og samfélagslega. Þannig hefur danskur almenningur orðið vitni að tveimur bylgjum #MeToo-hreyfingarinnar og árið 2020 var skilgreiningunni á nauðgun í dönskum lögum breytt úr því að aðeins væri hægt að tala um nauðgun ef ofbeldi eða ofbeldishótanir hefðu komið við sögu, í það að nauðgun væri kynferðismök án samþykkis.

Af hverju skiptir seksuel dannelse máli?

Ungmenni á ýmsum aldri og kennarar þeirra kalla nú eftir aukinni áherslu á kynfræðslu ؘ– og ekki aðeins í hinum hefðbundna skilningi orðsins, heldur á hátt sem gerir ráð fyrir dannelse: því ferli að verða að kynveru, sem er liður í mótun okkar sem einstaklinga. Vert er að hafa í huga að þetta ferli á ekki aðeins við ungt fólk, heldur er mikilvægt að það haldi áfram ævilangt.

Endurskilgreining á ríkjandi kynjaviðmiðum hefur orðið æ meira áberandi síðan seint á áttunda áratug tuttugustu aldar þegar hinsegin heimspekingar á borð við Michel Foucault, og síðar Judith Butler á 10. áratugnum, þróuðu nýjan póst-strúktúralískan skilning á kyni, kynvitund og kynverund sem gjörningi (e. performance), einhverju sem væri óstöðugt og fljótandi. Þessi nýi skilningur á kyni gekk í berhögg við hugmyndir eðlishyggjunnar, þar sem kyn er talið stöðugt og óbreytanlegt og litið er svo á að líffræðilegt kyn og félagslegt kyn (kyngervi) haldist í hendur. Hinn nýi hugsunarháttur bauð upp á mun blæbrigðaríkari og flóknari skilning á kyni og kyngervi þar sem líffræðilegt kyn, kynvitund og kyntjáning fara ekki endilega saman, og hefðbundin kynjahlutverk á forsendum tvíhyggju eru dregin í efa samfara nýjum leiðum til að „gera kyngervi“ (e. doing gender). Á sviðum uppeldis- og kennslufræða hefur þessi breytti skilningur á kyni og kyngervi getið af sér nálgun sem felur í sér vaxandi gagnrýni á ríkjandi viðmið samfélagsins, sem hefur haft áhrif á það hvernig kynfræðslu er háttað á ólíkum skólastigum í Danmörku, Svíþjóð og víðar.

Seksuel dannelse og kynfræðsla almennt geta veitt okkur aukinn skilning á okkur sjálfum og samböndum okkar við annað fólk. Í víðara samhengi getur slík fræðsla einnig hjálpað fólki að öðlast skilning á þeim gildum og viðmiðum sem samfélag þess og menning eru byggð á, skoða slík gildi og viðmið með gagnrýnu hugarfari og breyta bæði persónulegri hegðun (t.d. normalísera það að biðja um samþykki) og lögum landa (t.d. varðandi viðtekinn skilning á kynferðisbrotum) í þá átt að verða virðingarríkari, meira inngildandi og mannúðlegri.


Með því að leggja aukna áherslu á fræðslu má varpa ljósi á samfélagsleg málefni á breiðum grundvelli.

Þessi grein var upphaflega birt til að bregðast við áhuga lesenda á hugtakanotkun, kennslufræði og málefnum á sviði kynjafræði í Skandinavíu.


Frekara lesefni:

  • Judith Butler, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity (New York: Routledge, 2006).
  • Kira Skovbo Moser, Køn utopi! En retorisk undersøgelse af det feministiske kønsmanifest som drivkraft for sexual dannelse på de danske højskoler [Gender-Pretty utopia! A rhetorical study of the feminist gender manifesto as a driving force for sexual education at Danish folk high schools] (Aarhus University, 2022).
  • Line Anne Roien, Venka Simovska og Christian Graugaard (eds.), Seksualitet, skole og samfund [Sexuality, school, and society] (Hans Reitzels Forlag, 2018)
  • Mette Øyås Madsen, Seksuel Dannelse – Inspiration fra en højskolepraktiker [Sexual Education - Inspiration from a folk high school practitioner] (Højskolerne, 2023).
  • Steen Baggøe Nielsen, Gitte Riis Hansen, and Anette Erlandson Petersen (eds.), Køn, seksualitet og mangfoldighed [Gender, sexuality and diversity] (Samfundslitteratur, 2020).

Tenglar: